Ingólfshöfði

Ingólfshöfði er 76 metra hár klettahöfði sem dregur til sín áhugafólk um náttúru, dýralíf og landsnámssögu Íslendinga. Nafn sitt dregur hann af fyrsta landnámsmanni Íslands, Ingólfi Arnarsyni, sem dvaldi þar með fjölskyldu sinni fyrsta vetur sinn á landinu á árunum 874-875 áður en hann flutti sig lengra vestur. Árið 1974 var Ingólfi reistur minnisvarði í höfðanum og um leið var Ingólfshöfði friðlýstur.
Höfðinn sem er suður af Öræfasveit er um 1200 metra langur og um 750 metra breiður. Hamrar snúa suður að Norður-Atlantshafi og sandalda gengur upp að honum að norðanverðu. Á höfðanum eru bæði gróin og hrjóstrug svæði. Á vorin og sumrin eru hamrarnir þéttsetnir fuglum. Lundinn er þar áberandi sem og skúmurinn. Í Ingólfshöfða var áður fyrr mikið um fuglaveiðar og eggjatöku við erfiðar aðstæður.
Í gegnum tíðina hefur fjöldi skipa strandað á söndunum beggja vegna Ingólfshöfða og árið 1912 var reist skipbrotsmannskýli á höfðanum sem stendur enn. Vitinn á Ingólfshöfða var byggður árið 1916 og síðan endurbyggður árið 1948.
Hægt er að ferðast út í höfðann í heyvagni með ábúendum á Hofsnesi sem gera út ferðir í Ingólfshöfða yfir sumartímann. Fjölskyldan í Hofsnesi hefur sterkar rætur á svæðinu þar sem ættin hefur búið í Öræfasveit mann fram af manni í um 600 ár.

Myndir og myndbönd