Jökulsárlón á Breiðamerkursandi

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er einstakt náttúrufyrirbæri á heimsvísu og þykir einn eftirminnilegasti áfangastaður á Íslandi. Jökulsárlón er í alfaraleið við þjóðveg 1, um miðja vegu milli Skaftafells og Hafnar í Hornafirði. Gríðarstórir ísjakar sem hafa brotnað af Breiðamerkurjökli fljóta um jökullónið og skila sér með tímanum til sjávar niður stystu á Íslands, Jökulsá á Breiðamerkursandi. Flóðið skolar ísjökum svo aftur upp í svarta fjöruna þar sem þeir liggja dreifðir eins og risavaxnir demantar. Selir eru algeng sjón í Jökulsárlóni og yfir veturinn liggja þeir oft tugum saman á ísbreiðunni. Talsvert fuglalíf er á og við Jökulsárlón s.s. kría, skúmur, æðarfugl og lómur.
Jökulsárlónið fór að myndast við jaðar Breiðamerkurjökuls í kringum 1934-1935 þegar jökullinn fór að hopa. Áður tíma rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli um 1,5 km leið til sjávar. Síðan þá hefur lónið stöðugt stækkað.
Jökulsárlón er ákaflega vinsæll viðkomustaður og hægt er að njóta náttúrufegurðarinnar með því að ganga meðfram lóninu og niður í fjöru. Mestan hluta ársins er einnig hægt að fara í siglingu á Jökulsárlóni þar sem siglt er á milli ísjakanna og leiðsögumaður segir frá tilurð lónsins. Þjónustumiðstöðin við lónið er opin allt árið og þar er hægt að kaupa veitingar og minjagripi.
Jökulsárlón er hefur mikið aðdráttarafl á ljósmyndara vegna sérstæðrar náttúru og landslags. Það hefur einnig verið notað sem leikmynd í Hollywood myndum á borð við James Bond myndina Die Another Day, Tomb Raider og Batman Begins.

Myndir og myndbönd