Ríki Vatnajökuls Ríki Vatnajökuls er á Suðausturlandi og teygir sig meðfram suðurjaðar Vatnajökuls, frá Lómagnúpi í vestri að Hvalnesi í austri. Á þessu svæði hefur byggst upp öflug ferðaþjónusta með úrvali afþreyingar, gistingar og veitingastaða. Ferðaþjónustufyrirtæki bundust samtökum undir merkjum Ríkis Vatnajökuls og vinna saman að því að bjóða gestum upp á frábæra upplifun á Suðausturlandi.

NÁTTÚRUPERLUR OG JÖKLAFERÐIR

Frægustu náttúruperlur í Ríki Vatnajökuls eru Jökulsárlón og Skaftafell. Á Jökulsárlóni er opin þjónustumiðstöð allt árið og mestan hluta ársins er boðið upp á siglingar á lóninu eða frá ca. mars til nóvember. Í Skaftafelli er gestastofa suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs sem er opin allt árið. Þar er sýning og margvíslegur fróðleikur um svæðið auk minjagripaverslunar og upplýsingamiðstöðvar. Tjaldsvæði er í Skaftafelli og úrval gönguleiða s.s. upp að Svartafossi. Þrjú fyrirtæki bjóða upp á jöklagöngur með reyndum leiðsögumönnum og allur búnaður innifalinn. Íslenskir fjallaleiðsögumenn og Jöklamenn eru með starfstöðvar í Skaftafelli og fjölskyldufyrirtækið Öræfaferðir er í Hofsnesi í Öræfum, 15 mín. akstur frá Skaftafelli í austur. Jöklajeppar bjóða upp á snjósleðaferðir og jeppaferðir upp á Vatnajökuls sem lýkur með máltíð í Jöklaseli, hæsta veitingastað á Íslandi í 840 metra hæð yfir sjávarmáli.

ÁHUGAVERÐIR STAÐIR

Á leiðinni gegnum Ríki Vatnajökuls eru margir áhugaverðir staðir til að stoppa á. Á Þórbergssetri á Hala í Suðurveit er markverð sýning um líf og störf eins helsta rithöfundar þjóðarinnar, Þórbergs Þórðarsonar. Einnig gefur sýningin innsýn inn í líf fólks í Suðursveit í kringum aldamótin 1900. Fyrir yngstu kynslóðina er vinsælt að koma við í Húsdýragarðinum í Hólmi á Mýrum og einnig á Brunnhól á Mýrum þar sem hægt er að gæða sér á heimagerðum Jöklaís. Svo er gott að láta líða úr sér þreytu í heitu pottunum í Hoffelli í Nesjum. Fyrir þá sem vilja meiri hamagang er sundlaugin á Höfn tilvalin með þrjár stórar rennibrautir.

HUMARBÆRINN HÖFN

Höfn er eini þéttbýliskjarninn í Ríki Vatnajökuls og þar er mikil og góð þjónusta enda þjónar Höfn stóru dreifbýlissvæði í kring. Þar er að finna hótel, veitingastaði, söfn, tjaldsvæði, verslanir, bensínsstöðvar, pósthús, apótek o.fl. Höfn er stundum nefnd humarbærinn og árlega er haldin þar vegleg Humarhátíð sem er ein af elstu bæjarhátíðum á Íslandi. Það er skylda að bragða á humar þegar komið er á Höfn og af nógu að taka þar sem hver einasti veitingastaður í bænum býður upp á gómsæta humarrétti.